Innlent

Leita á svæði við Selvogsvita eftir að ábending barst frá borgara um helgina

Birgir Olgeirsson skrifar
Lík Birnu Brjánsdóttur fannst við Selvogsvita 22. janúar síðastliðinn eftir átta daga leit.
Lík Birnu Brjánsdóttur fannst við Selvogsvita 22. janúar síðastliðinn eftir átta daga leit. Vísir/Getty
Sérhæft björgunarsveitarfólk  tekur þátt í leit á svæði í Selvogi á Reykjanesi í dag vegna rannsóknar á dauða Birnu Brjánsdóttur. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að leitað verði á svæði í nágrenni Selvogsvita, en lík Birnu fannst þar 22. janúar síðastliðinn eftir átta daga leit. 

Grímur segir að verið sé að fylgja eftir vísbendingu sem barst frá borgara um helgina en vildi ekki fara nánar út í málið. 

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að sérhæft leitarfólk frá björgunarsveitum af Suðurlandi og Suðurnesjum muni taka þátt í leitinni sem hefst klukkan 13 í dag og mun standa fram í myrkur ef þörf er á því. 

Er áherslan lögð á svæði frá Hlíðarvatni, að Herdísarvík og Selvogsvita.

Einn er í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að dauða Birnu. Hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og einangrun í Héraðsdómi Reykjaness síðastliðinn fimmtudag. Hann hefur ekki verið yfirheyrður frá því hann var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald en Grímur Grímsson sagði í samtali við Vísi í gær að hann yrði ekki yfirheyrður yfir helgina en staðan verður tekin á morgun og þá ákveðið hvað verður gert í framhaldinu. Játning liggur ekki fyrir í málinu. 

Leitað er á svæðinu frá Hlíðarvatni, að Herdísarvík og Selvogsvita.Loftmyndir ehf.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×