Innlent

Jórunn Viðar er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Jórunn var sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu árið 1989.
Jórunn var sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu árið 1989.
Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari, lést í dag, 98 ára að aldri.

Jórunn fæddist í Reykjavík þann 7. desember 1918 , dóttir hjónanna Katrínar og Einars Viðar.

Jórunn lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík átján ára gömul og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og sigldi svo til Berlínar þar sem hún hóf framhaldsnám í píanóleik við Hochschule für Musik. Á árunum 1943 til 1945 nam hún tónsmíðar við Juilliard School of Music í New York hjá Vittorio Giannini.

Að námi loknu sneri hún aftur til Íslands og átti eftir að vera mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi, bæði sem píanóleikari og tónskáld.

Á meðal merkustu verka Jórunnar má nefna ballettana Eld og Ólaf Liljurós, tónlistina við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum og píanókonsertinn Sláttu. Þá samdi hún fjölmörg þjóðþekkt sönglög á borð við jólalögin Jól og Það á að gefa börnum brauð. Hún var lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Jórunn Viðar var valin borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1999, hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004 og Menningarverðlaun DV 2009. Jórunn var á lista yfir þá sem fá heiðurslaun listamanna og var hún sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu árið 1989.

Jórunn giftist Lárusi Fjeldsted forstjóra (f. 1918, d. 1985) og eignuðust þau þrjú börn: Lárus (f. 1942); Katrínu (f. 1946) og Lovísu (f. 1951).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×