Erlent

Hvetur dómara í Póllandi til þess að berjast gegn tillögum ríkisstjórnarinnar um skipan dómara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lagt er til að pólska þingið komi að skipun dómara þar í landi.
Lagt er til að pólska þingið komi að skipun dómara þar í landi. Vísir/EPA
Forseti hæstaréttar Póllands, Malgorzata Gersdorf, hefur hvatt dómara í landinu til þess að berjast fyrir réttlæti en ríkisstjórn landsins vinnur nú að breytingum á stjórnarskránni sem gagnrýnendur segja að grafi undan sjálfstæði dómstóla þar í landi. Guardian greinir frá.

„Í meira en ár hef ég endurtekið þá skoðun mína að auðvelt sé að gera dómstóla að leiksoppum stjórnmálamanna. Það sem áður var ógn, er nú að verða að veruleika.“

Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PIS) hefur kynnt hugmyndir sínar um að „lýðræðisvæða“ val á dómurum þar í landi en um þessar mundir er setning dómara ákveðin af sérstöku stjórnskipunarráði, sem kosið er í af dómurum landsins.

Tillögur ríkisstjórnarinnar kveða hins vegar á um að meðlimir í þessu tiltekna ráði verði valdnir af þingi landsins, sem heldur kosningu um meðlimi í ráðinu, sem byggð verður á tillögum forseta þingsins. Þá kveða tillögurnar á um að ráðinu yrði skipt í tvær deildir, þar sem dómarar myndu sitja í einni deild og stjórnmálamenn í hinni. Báðar deildirnar yrðu að samþykkja útnefningar á vegum ráðsins.

„Tillögur ríkisstjórnarinnar munu nýtast stjórnmálamönnum til þess að tryggja að „réttir“ dómarar yrðu skipaðir í embætti, sem ekki væru of gagnrýnir á yfirvöld,“ segir Ewa Letowska, pólskur lagaprófessor.

Ráðinu var gefið þrír virkir dagar til þess að bregðast við tillögum ríkisstjórnarinnar en tillögurnar bárust ráðinu á fimmtudag frá dómsmálaráðuneytinu. Í harðorðri tillögu frá ráðinu kom fram að um væri að ræða „augljósa og ógeðfellda aðför að pólsku stjórnarskránni.“

Ríkisstjórnin hefur fært rök fyrir því að tillögur sínar „efli lýðræði í landinu og sjálfstæði dómstóla,“ með því að fría dómsstigið frá hagsmunatengslum við stórfyrirtæki.“ Bent er á að svipað fyrirkomulag sé haft á slíkum málum á Spáni og í Þýskalandi.

Fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók við völdum árið 2015, var embætti ríkissaksóknara og dómsmálaráðherra sameinuð og hafa margir lagasérfræðingar bent á að ríkisstjórnin hafi þannig auðveldað stjórnmálamönnum að hafa áhrif á ákvarðanir dómara.

„Við höfum nú þegar séð fjölmörg dæmi þess að saksóknarar sem heyra undir dómsmálaráðherra, hafa hafið glæparannsóknir á dómurum sem hafa komist að niðurstöðu sem þeir eru ekki sammála,“ segor Letowska. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×