Erlent

Notuðu myndefni frá alvöru hryðjuverkaárás í 24: Legacy

Samúel Karl Ólason skrifar
Framleiðendur þáttanna 24: Legacy hafa beðist afsökunar á því að nota myndefni af raunverulegri hryðjuverkaárás í nýjasta þætti þáttaraðarinnar. Notast var við myndbönd frá árásinni á Westgate verslunarmiðstöðina í Naíróbí í Kenía 2013 og áttu það að vera ímynduð hryðjuverkaárás í Egyptalandi.

Samfélagsmiðlar í Kenía og víðar loguðu eftir að þátturinn var sýndur, en myllumerkið #SomeOneTellFox var notað til að gagnrýna birtingu efnisins.

67 manns létu lífið í árásinni þegar vígamenn al-Shabab réðust þungvopnaðir jinn í verslunarmiðstöðina og skutu á alla sem þeir sáu.

Í þættinum sem sýndur var í vikunni, mátti sjá vígamenn ganga um verslunarmiðstöðina og skjóta á fólk. Tekið var fram í þættinum að rúmlega 200 manns hefðu látið lífið og þar af 18 frá Bandaríkjunum.

Talsmaður Fox Studios staðfesti að myndefnið hefði verið frá Westgate. Hann sagði framleiðendur þáttanna sjá eftir þessu og að allt myndefni frá árásinni yrði fjarlægt úr þáttunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×