Innlent

Utanríkisráðherra ósammála formanni utanríkismálanefndar um EFTA

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. vísir/þórhildur
Utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, segir að hann sé ósammála ummælum formanns utanríkismálanefndar og þingmanns Viðreisnar, Jónu Sólveigar Elínardóttur, sem hún lét falla í samtali við Washington Post, um að aðild Íslands að EFTA dugi ekki lengur til að tryggja hagsmuni Íslands.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, þar sem Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði utanríkisráðherra út í afstöðu sína til ummæla formanns utanríkismálanefndar.

„Ég spyr því hæstvirtan utanríkisráðherra hvort hann sé sammála formanni utanríkismálanefndar um að aðild Íslands að EFTA dugi ekki lengur til að tryggja hagsmuni Íslands.“

Guðlaugur sagði að greinin sem birst hafi í Washington Post hafi ekki verið nákvæm og vel unnin. Meginatriði málsins séu þau að Ísland sé í góðri stöðu þegar kemur að samskiptum við Evrópu.

„Svarið við spurningu háttvirts þingmanns er einfaldlega, að ef rétt er eftir haft í þessu viðtali, er ég ekki sammála þeirri fullyrðingu.“

Lilja kom þá aftur upp í ræðustól og sagði að hún hafi litið aftur á greinina og að sér sýndist sem svo að ummæli formanns utanríkismálanefndar hefði verið skýr.

„Ég hef ekki tekið eftir því að hún hafi leiðrétt nokkuð í þessari grein.“

„Þess vegna spyr ég hæstvirtan utanríkisráðherra hvort standi til að leiðrétta þessi gerólíku sjónarmið sem koma fram í Washington Post og hvort það væri ekki æskilegt gagnvart samstarfsaðilum okkar í EFTA.“

Utanríkisráðherra svaraði Lilju og sagði að leiðrétting hefði verið send út til blaðsins út af þessari grein, vegna þess að margt hefði verið farið rangt með.

„Það er hins vegar ekki aðalatriðið. Það liggur fyrir að Íslendingar eru að starfa með EFTA ríkjum að því sem að snýr að útgöngu Breta úr ESB. Þar með talið fylgst vel með því sem er að gerast á vettvangi ESB.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×