Innlent

Vaðlaheiðargöng opnuð haustið 2018

Sveinn Arnarsson skrifar
Brösuglega hefur gengið að grafa undir Vaðlaheiði.
Brösuglega hefur gengið að grafa undir Vaðlaheiði. vísir/auðunn
Svo gæti farið að gegnumslag Vaðlaheiðarganga verði ekki fyrr en í júlí á þessu ári og að opnun ganganna fyrir umferð frestist af þeim orsökum til haustsins 2018. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir erfið setlög setja strik í reikninginn.

„Við lentum í mjög erfiðu setbergi Eyjafjarðarmegin í nóvember á síðasta ári og höfum síðan verið að vinna okkur út úr því. Þétt berg er Fnjóskadalsmegin svo við vitum að setlagið mun taka enda um síðir,“ segir Valgeir. „Það eru um 400 metrar eftir. Síðan í nóvember höfum við farið tæpa hundrað metra Eyjafjarðarmegin.“

Að meðaltali hefur gangagröfturinn því verið um 15-20 metrar á mánuði. Ef fram heldur sem horfir mun gegnumslag því frestast fram í júlí. „Við vissum að við myndum lenda í erfðum setlögum en þetta er kannski óvenjulega langur kafli. Svona kaflar eru kannski tilefni til að skoða hvort við getum gert hlutina betur og hvort markvissara verklag sé mögulegt hér á landi,“ bætir Valgeir við.

Mikið hefur gengið á við gerð Vaðlaheiðarganga síðustu ár. Heitt vatn Eyjafjarðarmegin torveldaði vinnu og kalt vatn fyllti upp í göngin Fnjóskadalsmegin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×