Erlent

Trump segir dómarann hafa farið út fyrir valdsvið sitt

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump segist munu fara með málið "alla leið“, gerist þess þörf – það er til Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Donald Trump segist munu fara með málið "alla leið“, gerist þess þörf – það er til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að dómarinn á Hawaii, sem setti í gærkvöldi lögbann á nýtt ferðabann forsetans, hafi farið út fyrir valdsvið sitt með fordæmalausum hætti.

Dómarinn Derrick Watson vísaði í úrskurði sínum til „hæpinna sönnunargagna“ í rökstuðningi Bandaríkjastjórnar um að ferðabannið væri nauðsynlegt til að tryggja megi þjóðaröryggi. Sagði hann bannið fela í sér mismunun sem stríði gegn stjórnarskránni þar sem kveðið er á um að bannað sé að mismuna fólki á grundvelli trúarskoðana.

Nýtt ferðabann átti að taka gildi á miðnætti.

Önnur tilraun forsetans

Ferðabannið meinar ríkisborgurum frá sex ríkjum, þar sem mikill meirihluti íbúa eru múslimar, að koma til Bandaríkjanna næstu níutíu dagana og bannar komu flóttafólks til landsins næstu 120 dagana. Ríkin sem um ræðir eru Sýrland, Íran, Jemen, Sómalía, Líbía og Súdan.

Þetta var önnur tilraun Trump til að koma á ferðabanni en í janúar var fyrra ferðabannið dæmt ólögmætt af dómstólum.

Trump segir að með ferðabanninu sé ætlunin að stöðva komu hryðjuverkamanna til Bandaríkjanna.

Stjórnvöld á Hawaii höfðu lagst gegn ferðabanni forsetans og sögðu það meðal annars skaða ferðamannaiðnaðinn og getu til að laða til sín erlenda nemendur og starfsfólk.

Kveðst ætla með málið „alla leið“

Trump tjáði sig um úrskurð dómarans á fundi í Nashville í Tennessee í gærkvöldi þar sem hann sagði dóminn „gallaðan“ og að dómarinn hafi „farið út fyrir valdsvið með fordæmalausum hætti“.

Segir forsetinn að hann muni fara með málið „alla leið“, gerist þess þörf – það er til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Dómnum verður næst áfrýjað til sama dómstóls og dæmdi fyrra ferðabann forsetans ólögmætt í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

Lögbann sett á nýtt ferðabann Trump

Alríkisdómari í Hawaii hefur sett tímabundið lögbann á nýtt ferðabann Donald Trump Bandaríkjaforseta sem taka átti gildi eftir nokkra klukkutíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×