Erlent

Hægt að gera mun meira fyrir flóttafólk

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk á eyjunni Lesbos við Grikkland. Á grísku eyjunum eru enn um 15 þúsund flóttamenn sem komast hvorki áfram til Evrópu né til baka til Tyrklands.
Flóttafólk á eyjunni Lesbos við Grikkland. Á grísku eyjunum eru enn um 15 þúsund flóttamenn sem komast hvorki áfram til Evrópu né til baka til Tyrklands. vísir/epa
„Það er í raun skelfilegt að Evrópusambandið hafi gert við Tyrki samkomulag sem svo augljóslega brýtur gegn alþjóðalögum og ber þess öll einkenni að þar hafi skammsýnin ein ráðið för,“ segir Anna Shea, lögfræðingur og rannsakandi í málefnum flóttafólks hjá aðalstöðvum Amnesty International í London.

Hún er þarna að tala um samkomulagið sem gert var snemma á síðasta ári, og raunar undirritað fyrir næstum því réttu ári, þann 18. mars árið 2016. Það samkomulag snerist um að Tyrkir tækju aftur við flóttafólki sem hafði farið frá Tyrklandi yfir hafið til Grikklands. Í staðinn myndi Evrópusambandið taka við flóttafólki beint frá Tyrklandi og jafnframt greiða Tyrkjum milljarða evra til að standa straum af kostnaðinum.

Hún segir þennan samning hvorki standast siðferðilegar né lagalegar kröfur. Auk þess hafi hann engan veginn skilað þeim árangri sem að var stefnt.

„Staðreyndin er sú að einungis nokkur hundruð manns hefur verið snúið til baka aftur til Tyrklands og einungis nokkur hundruð hafa verið send hingað í staðinn. Fólkið situr fast í Tyrklandi, kemst hvergi, en samt segir Evrópusambandið að mikill árangur hafi náðst og vill gera sams konar samkomulag við fleiri lönd, þar á meðal lönd eins og Líbíu og Súdan. Frá sjónarhóli okkar í Amnesty Inter­national er þetta illskiljanlegt, að ESB skuli tala um þennan samning eins og hann hafi borið einhvern árangur.“

Anna Shea, lögfræðingur hjá Amnesty International.vísir/eyþór
Misheppnað samkomulag

Hún segir að Tyrkland sé alls ekki öruggt land fyrir flóttafólk. Sjálf hafi hún komist að raun um það þegar hún hélt til Tyrklands til að rannsaka málið sjálf.

„Ég sá það að fólk hefur verið sent aftur til Sýrlands, Afganistans og Íraks þar sem það á á hættu að verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum. Auk þess eru nú þegar þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi auk hundraða þúsunda annarra flóttamanna, þannig að ástandið þar er alls ekki gott fyrir. Svo eru fimmtán þúsund manns fastir á grísku eyjunum og komast hvergi.

Þetta samkomulag hefur því mistekist svo gjörsamlega, en samt er Evrópusambandið að reyna að gera sams konar samkomulag við fleiri lönd. ESB vill nú útfæra hugmyndina um Evrópuvirkið þannig að það nái til landanna næst Evrópusambandinu í suðri og austri.“

Hún segir nokkuð augljóst að ráðamenn í löndum Evrópusambandsins stjórnist af ótta við kosningatap. Rasisma og ótta við útlendinga og múslima hafi vaxið ásmegin á síðustu árum, en menn verði þó að vara sig á því að þessi þróun sé alls ekki einhlít. Víða megi sjá merki þess að samstaða og samkennd almennings með flóttafólki sé býsna sterk.

„Amnesty gerði til dæmis könnun á síðasta ári þar sem fólk í ýmsum löndum var spurt hvað því þætti um að fá flóttafólk inn í hverfin sín eða jafnvel inn á heimili sín. Þar kom í ljós að fólk almennt er miklu opnara fyrir því að fá flóttafólk heldur en stjórnvöld halda.“

Sjálf er hún frá Kanada og bendir á að þar hafi hinn frjálslyndi Justin Trudeau unnið mikinn kosningasigur seint á árinu 2015 eftir að hægri stjórn Stephens Harper hafði árum saman fylgt harðri stefnu gegn flóttafólki og útlendingum almennt.

„Nýja stjórnin ákvað strax að taka við þrjátíu þúsund flóttamönnum, sem er gríðarmikill fjöldi fólks, og náði því markmiði á aðeins fjórum mánuðum. Þannig að ef pólitískur vilji er til staðar, þá getur það gerst að það sem rétt er að gera verður að veruleika. Það þurfti ekki nema einar kosningar og síðan þá hefur velvilji Kanadamanna gagnvart flóttafólki verið augljós og fyllt alla fréttatíma, þannig að ég vil halda því fram að í öllum löndum er fyrir hendi þessi möguleiki að atburðirnir snúist í hina áttina.“

Múrar leysa engin vandamál

Hún segir jafnframt vekja furðu að Ungverjaland hafi hreinlega sett upp landamæramúra og að fleiri ESB-lönd hafi lokað landamærum sínum til annarra ESB-landa.

„Mér finnst það hreint hneyksli að stjórnvöld telji að múrar muni leysa vandamál þeirra. Fólkið á eftir að rífa þá niður og vonandi verður þessi landamæramúr sem Ungverjar hafa verið að reisa einnig rifinn niður einn daginn. Fólksflutningar eru nefnilega svo eðlilegur hlutur. Þetta hefur mannkynið alltaf gert. Það á ekki að búa til úr því glæp. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að fólk flytjist á milli staða. Spurningin er bara hvort menn ætli að láta það hætta lífi sínu eða hvort flutningarnir geti farið fram með skipulögðum og skynsamlegum hætti.“

Hún segir það kærkomið að Ísland hafi tekið þátt í að taka við flóttafólki með skipulögðum hætti. Nú komi hingað um 50 manns árlega. Hins vegar geti Ísland vel gert betur.

„Þegar í hlut á land eins og Ísland sem er með svona háa þjóðarframleiðslu þá myndi ég ætla að fjöldinn gæti verið miklu meiri. Og ég er viss um að Ísland veitir fé til þróunarmála og mannúðarviðbragða erlendis, og það skiptir miklu máli, en þessi verkefni eru aldrei nógu vel fjármögnuð þannig að Ísland getur lagt meira af mörkum. Og það þarf að gera fleira fólki kleift að komast til öruggra staða eins og Íslands.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×