Erlent

Segja að fleiri efnavopnaárásir hafi verið gerðar í Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Utanríkisráðherra Sýrlands ítrekaði það í morgun að stjórnarher landsins beiti ekki efnavopn í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum.
Utanríkisráðherra Sýrlands ítrekaði það í morgun að stjórnarher landsins beiti ekki efnavopn í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum. Vísir/AFP
Fréttir berast nú af því að önnur efnavopnaárás hafi verið gerð í Sýrlandi. Ísraelski fjölmiðillinn Haaretz greinir frá þessu en fréttirnar hafa enn ekki fengist staðfestar.

Að sögn Haaretz herma þessar fréttir að tunnum fullum af klórgasi hafi verið sleppt norðarlega í Hama-héraði sem er að finna í norðurhluta Sýrlands. Segja uppreisnarmenn að gul reykský hafi sést í bænum Al-Lataminah.

Meint árás á að hafa átt sér stað tveimur dögum eftir efnavopnaárásina í Idlib þar sem sjötíu manns hið minnsta létu lífið. Sú árás hefur verið fordæmd víða, en í hópi látinna voru um tuttugu börn.

Utanríkisráðherra Sýrlands ítrekaði það í morgun að stjórnarher landsins beiti ekki efnavopn í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að efnavopnaárásin í Idlib væri móðgun við mannkyn og sagðist hann vilja Bashar al-Assad Sýrlandsforseta burt. Nauðsyn væri að binda enda á ofbeldið í Sýrlandi.

Trump sagði árásina hafa haft mikil áhrif á sig og að viðhorf hans gagnvart Assad væru nú gjörbreytt, en Sýrlandsstjórn hefur verið sökuð um að beita efnavopnum gegn uppreisnarmönnum. Því hefur stjórn Assad hins vegar alla tíð neitað.


Tengdar fréttir

Tugir létust í efnavopnaárás í Sýrlandi

Talið er að að minnsta kosti 67 manns, þar af fjöldi barna, hafi látist í efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhun Idlib-héraði í Norður-Sýrlandi í dag. Þá er talið að yfir 200 manns hafi særst í árásinni.

Á sjötta tug fórust í efnavopnaárásinni

Talið er að saríngasi hafi verið varpað á íbúa sýrlenska bæjarins Khan Sheikhoun. Sýrlenski herinn neitar því að hafa beitt efnavopnum. Stjórnarandstaðan fer fram á tafarlausa rannsókn öryggisráðs SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×