Niðurstöður árekstrarprófana hafa þó valdið vonbrigðum. Samkvæmt Jyllands Posten hefur mönnum nú orðið ljóst að tálmarnir veita ekki þá vernd sem þeim er ætlað.

Í desember síðastliðnum ók maður vörubíl á jólamarkað í Berlín og varð tólf manns að bana. 86 létu lífið í Nice síðasta sumar þegar hryðjuverkamaður ók nítján tonna vöruflutningabíl á vegfarendur á Promenade des Anglais, vinsælli göngugötu meðfram ströndinni.
Í árekstrarprófununum var tíu tonna vörubifreið ekið á 50 kílómetra hraða á 2,4 tonna þunga tálma. Kom í ljós að þeir færðust að minnsta kosti 25 metra úr stað við áreksturinn.
„Ekkert – ekki einu sinni steinsteyptir tálmar á götum úti – getur hindrað óðan mann í að keyra bíl upp á gangstéttir í Kaupmannahöfn,“ sagði Peter Dahl, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn í samtali við Jyllands Posten.

Árásin á jólamarkaðinn í Berlín í desember síðastliðnum varð til þess að Bretar hrundu af stað áætlun til þess að koma í veg fyrir mannfall ef sambærilega árás bæri að garði. Steinsteyptum tálmum var komið fyrir víða á mannmörgum stöðum, til dæmis á jólamörkuðum í stórum borgum á Bretlandseyjum.
Fulltrúi almannaöryggissviðs í Bretlandi fullyrti í samtali við BBC í desember síðastliðnum, eftir árásina í Berlín, að aðgerðir Breta gerðu það að verkum að Bretland væri umtalsvert betur í stakk búið til þess að verjast vörubifreiðaárásum en önnur ríki Evrópu.
Aðeins þremur mánuðum síðar var árás gerð við þinghúsið í Lundúnum af ökumanni á vörubifreið. Bifreið ökumannsins stöðvaðist eftir að hann hafði ekið á grindverk umhverfis þinghúsið og hraðaði hann sér þá út úr bílnum og réðst á lögregluþjón með hníf.
Eftir árásina við Westminster var steyptum tálmum meðal annars komið fyrir umhverfis Buckingham-höll.
Á myndbandinu hér að neðan má sjá árekstrarprófanirnar en þær voru framkvæmdar af þýska fyrirtækinu MDR Umschau.