Erlent

Hæstiréttur Pakistans segir sannanir ekki nægar

Atli Ísleifsson skrifar
Stuðningsmenn forsætisráðherrans fögnuðu eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir.
Stuðningsmenn forsætisráðherrans fögnuðu eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir. Vísir/AFP
Hæstiréttur Pakistans hefur dæmt að ekki séu nægar sannanir til að svipta Nawaz Sharif embætti forsætisráðherra vegna meintrar spillingar. Þess í stað fyrirskipaði dómurinn að frekari rannsókn verði gerð á peningamillifærslum ráðherrans.

Dóms hæstaréttar Pakistans hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Fjármál Sharif og fjölskyldu hans hafa mikið verið til umfjöllunar eftir að þrjú barna forsætisráðherrans voru bendluð við aflandsreikninga í Panamaskjölunum svokölluðu.

Í frétt BBC kemur fram að Sharif og fjölskylda hans hafni því að hafa gert nokkuð rangt og segja ásakanirnar drifnar áfram af pólitískum andstæðingum Sharif.

Um 1.500 lögreglumenn voru að störfum í kringum Hæstarétt landsins í höfuðborginni Islamabad í morgun þar sem mótmælendur kröfðust afsagnar Sharif.

Hæstiréttur Pakistans samþykkti að taka málið til umfjöllunar eftir að leiðtogi stjórnarandstöðu landsins, Imran Khan, hótaði því að hvetja til götumótmæla.

Rannsóknin snýr að stærstum hluta að því að fé á aflandsreikningum á að hafa verið notað til að fjárfesta í fasteignum í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×