Handbolti

Valsmenn íhuga kæru: „Dómararnir voru keyptir“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Valsmenn eru úr leik.
Valsmenn eru úr leik. vísir/andri marinó
Valur hyggst kæra framkvæmd leiksins gegn Potaissa Turda í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu. Þetta staðfesti Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfara Vals, í samtali við Vísi eftir leikinn í Rúmeníu í dag.

Valur tapaði leiknum í dag með níu mörkum, 32-23, eftir að hafa unnið fyrri leikinn með átta mörkum, 30-22.

Frammistaða tékkneska dómaraparsins var fyrir neðan allar hellur og Valsmenn voru afar ósáttir við þá. Þeir hafa ákveðið að kæra framkvæmd leiksins.

Vísir ræddi við Óskar Bjarna eftir leikinn í kvöld og spurði hvað það hefði verið, að hans mati, sem varð til þess að dómgæsla tékknesku dómaranna var eins og hún var. Voru dómararnir keyptir?

„Já, það er pottþétt. Þetta eru stór orð en ég stend við þau. Dómararnir voru keyptir,“ sagði Óskar Bjarni sem sagðist aldrei verið jafn sár og eftir leik í kvöld. Valsmenn eru að íhuga að kæra úrslit leiksins til EHF.

„Við erum að klippa saman leikinn núna og erum búnir að tala við lögfræðing. Við erum að íhuga að kæra. En það er samt alveg ljóst að úrslit leiksins munu standa. Það megi vel vera að dómararnir verði settir í bann eða eitthvað slíkt en reyndir menn segja mér að úrslitin muni samt standa.“

Óskar Bjarni segir að þetta sé sorglegur vitnisburður fyrir handboltann.

„Það er árið 2017 og þetta er bara svo augljóst mál, hvað var þarna í gangi. Það getur hver einasti maður séð það.“


Tengdar fréttir

Valsmenn úr leik eftir dómarafarsa í Rúmeníu

Valur leikur ekki til úrslita í Áskorendabikar Evrópu. Þetta var ljóst eftir níu marka tap, 32-23, fyrir Potaissa Turda í seinni leik liðanna í undanúrslitum í Rúmeníu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×