Erlent

ISIS grefur jarðsprengjur í Mósúl til að fyrirbyggja fólksflótta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ekki er lengur hægt að flýja Mósúl líkt og þessir borgarar gerðu fyrr á árinu.
Ekki er lengur hægt að flýja Mósúl líkt og þessir borgarar gerðu fyrr á árinu. Nordicphotos/AFP
Vígamenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) grafa nú jarðsprengjur við útgönguleiðir borgarinnar Mósúl í Írak. Frá þessu greindi Reuters í gær og hafði eftir vitnum og írösku lögreglunni en írakski herinn þjarmar nú að hryðjuverkamönnunum og virðist ætla að vinna borgina aftur af þeim eftir sjö mánaða orrustu.

Að sögn vitna og lögreglu eru jarðsprengjurnar grafnar til þess að koma í veg fyrir að almennir borgarar flýi borgina. Írakski herinn hefur greint frá því að vígamennirnir nýti sér hundruð þúsunda borgara sem varnarvegg gegn árásum Írakshers.

Sókn Íraka hefur gengið vel og heldur ISIS nú einungis tólf ferkílómetra hverfi sem kallað er Gamla borgin. Hverfið er fjölmennt og götur þröngar. Því þurfa írakskir hermenn að skilja bíla og skriðdreka eftir og sækja fótgangandi inn í hverfið.

Í samtali við ríkissjónvarp Íraks sagði hershöfðinginn Abdul Ghani al-Assadi að stefnt væri að því að ná borginni á vald Íraka fyrir hinn helga mánuð ramadan. Hann hefst í lok maímánaðar.

Þá sagði hann að ISIS hefði sprengt þrjátíu bílsprengjur undanfarna tvo daga í baráttunni við hermenn hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×