Innlent

Fullur á færibandi í flugstöðinni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Vísir/Vilhelm
Nokkuð var um drykkjulæti í Leifsstöð í vikunni ef marka má skeyti frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem segist hafa sinnt óvenju mörgum verkefnum í Leifsstöð á undanförnum dögum.

Til að mynda var óskað eftir aðstoð lögreglunnar vegna tveggja manna sem fengu ekki að fara í flug vegna ástands síns. Þeir voru háværir og æstir þegar lögreglumenn bar að garði en róuðust þegar rætt var við þá.

Annar aðili, sem taldi sig vera á leið úr landi, sat ofurölvi á færibandi í brottfararsal þegar lögregla kom á staðinn. Honum var boðin gisting í fangaklefa sem hann þáði.

Þá var einn handtekinn eftir að hafa verið vísað frá flugi vegna ástands síns. Hann hafði meðal annars boðið starfsmanni í flugstöðinni að koma í slagsmál við sig.  

Jafnframt var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þriggja manna sem höfðu verið með læti í innritum, en einum þeirra var synjað um flug þar sem hann var ekki með vegabréf meðferðis.

Loks voru þrír menn til viðbótar stöðvaðir með fölsuð skilríki. Einn þeirra framvísaði bresku vegabréfi en við nánari skoðun kom í ljós að það var í eigu annars manns. Hinir tveir framvísuðu grunnfölsuðum vegabréfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×