Innlent

Ummæli landlæknis hörmuð

Sveinn Arnarsson skrifar
Landlæknir sagði stóraukna einkastofustarfsemi sérfræðilækna ógna öryggi sjúklinga á LSH.
Landlæknir sagði stóraukna einkastofustarfsemi sérfræðilækna ógna öryggi sjúklinga á LSH. vísir/gva
Formaður Læknafélags Íslands og formaður Lækna­félags Reykjavíkur gagnrýna harðlega ummæli Birgis Jakobssonar landlæknis í Fréttablaðinu í gær þess efnis að vera sérfræðilækna á einkareknum læknastofum utan Landspítala sé ógn við sjúklinga á LSH.

Landlæknir sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að sérfræðingar dragist í einkageirann. „Við erum með kerfi sem gerir það að verkum að sérfræðingar og læknar dragast frá Landspítala í stofu­praxís í of miklum mæli að mínu mati sem þýðir að sérfræðingar verja of litlum tíma á LSH. Þar með er öryggi sjúklinga stofnað í hættu,“ sagði Birgir.

Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur
Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, er ósátt við þessi orð landlæknis. „Það stenst enga skoðun að sérfræðilæknar utan sjúkrahússins séu ógn við sjúklinga á LSH. Að mínu mati eru þessi ummæli röng og sérfræðilæknar á einkastofum eiga skilið afsökunarbeiðni frá landlækni.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, er sammála kollega sínum, Örnu, um að þessi orð séu óheppileg og ekki rétt.

„Mér finnst það ábyrgðarhluti af landlækni að taka svo djúpt í árinni. Landlæknir er í ákveðinni stöðu og orð hans hafa mikið vægi í íslensku heilbrigðiskerfi. Þess vegna skiptir miklu máli að tala af ábyrgð og rökstyðja mál sitt vandlega. Ég tel ummæli hans órökstudd og ekki til þess fallin að bæta íslenskt heilbrigðiskerfi,“ segir Þorbjörn.

Þorbjörn Jónsson
Landlæknir sagði einnig að yfir helmingur sérfræðilækna á LSH ynni einnig á stofum úti í bæ og taldi það óeðlilegt út frá sjónarhorni spítalans og sjúklinga. Þorbjörn segir það mikinn misskilning og telur það fyrirkomulag til hagsbóta.

„Í raun er það ekki óeðlilegt eða óheppilegt. Í sumum sérfræðigreinum getur það verið nauðsynlegt fyrir bæði sjúkrahúsið og sjúklinga að sérfræðilæknar geti yfirhöfuð unnið á einkastofum. Við höfum byggt upp kerfi þar sem langflest vinna er unnin af hinu opinbera og síðan meðfram því er lítill hluti þess í einkageiranum. Það hefur sýnt góðan árangur upp á síðkastið,“ bætir Þorbjörn við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×