Erlent

Rúmlega hundrað almennir borgarar féllu í loftárás á Mósúl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hart hefur verið barist í Mósúl.
Hart hefur verið barist í Mósúl. Nordicphotos/AFP
Rúmlega hundrað almennir borgarar féllu þegar bandaríski herinn gerði loftárás á íröksku borgina Mósúl í mars síðastliðnum. Skotmark árásarinnar voru tvær leyniskyttur Íslamska ríkisins og var nákvæmnissprengjum skotið að þeim. Hins vegar varð höggið frá þeim tiltölulega litlu sprengjum til þess að sprengjur sem liðsmenn Íslamska ríkisins höfðu komið fyrir í byggingunni sprungu einnig.

Við sprenginguna hrundi byggingin og fórust almennir borgarar á neðri hæðum hennar. Þá fórust einnig fjórir til viðbótar í nærliggjandi byggingu.

Í skýrslu bandaríska hersins segir að ekki hafi verið hægt að spá fyrir um staðsetningu almennra borgara í byggingunni áður en árásin var gerð. Þá kemur fram að sprengjur Íslamska ríkisins hafi verið fjórum sinnum aflmeiri en sprengjurnar sem herinn notaði, hið minnsta.

„Hugur okkar er hjá hinum látnu, særðu og aðstandendum,“ segir í yfirlýsingu frá Bandaríkjaher.

Írakski herinn hefur leitt baráttuna gegn Íslamska ríkinu í Mósúl undanfarið. Náði hann austurhluta borgarinnar á sitt vald í janúar en erfiðlega hefur gengið í vesturhlutanum. Þar skýla vígamenn ISIS sér á bakvið almenna borgara og þurfa Írakar að sækja án skriðdreka og bíla vegna þess hve götur eru þröngar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×