Erlent

Tyrkir hóta að afturkalla ríkisborgararétt hundruða

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Tyrknesk yfirvöld gáfu í dag út yfirlýsingu þar sem þau segja að þau muni afturkalla ríkisborgararétt um 130 ríkisborgara sem staddir eru erlendis og þau saka um að tengjast hryðjuverkasamtökum, nema þeir aðilar komi heim til Tyrklands innan þriggja mánaða. Reuters greinir frá.

Þeirra á meðal er Fethullah Gulen, sem tyrknesk yfirvöld hafa alla tíð sakað um að hafa verið einn af forsprökkum valdaránstilraunarinnar sem gerð var þann 15. júlí í fyrra. Þá reyndi hluti hersins að velta Erdogan forseta landsins úr stóli.

Gulen hefur búið í Bandaríkjunum frá árinu 1999 og þvertekur fyrir að hafa komið nálægt valdaránstilrauninni.

Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið 50 þúsund manns og rekið 150 þúsund manns úr opinberum stöðum, svo sem eins og hermenn, lögreglumenn, kennara og starfsmenn opinberra stofnanna, sem þau saka um að tengjast valdaránstilrauninni.

Fyrr á árinu samþykktu Tyrkir með naumindum að veita forsetaembættinu meiri völd á kostnað þingsins og sóttist Erdogan Tyrklandsforseti eftir þeim breytingum vegna þess sem hann sagði aukna ógn við Tyrkland og var umrædd valdaránstilraun ítrekað notuð sem dæmi um þá ógn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×