Erlent

Flóknustu gatnamót heims vekja undrun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Draumur einkabílsins.
Draumur einkabílsins. Vísir/Getty
Mislægu Huangjuewan-gatnamótin í Chongqing í Kína hafa vakið töluverða athygli netverja, jafnt sem furðu,  allt frá því að þau voru vígð í maí.

Tuttugu akreinar á fimm hæðum, sú efsta í um 37 metra hæð, liðast í átta mismunandi áttir og hafa valdið fjölmörgum ökumönnum töluverðu hugarangri.

Gatnamótin eru í útjaðri borgarinnar Chongqing í suðvesturhluta landsins þar sem búa um 8 milljónir manna. Borgaryfirvöld segja flækjustig gatnamótanna hafa verið nauðsynlegt til að tengja saman borgina, flugvöllinn og nærliggjandi hraðbraut.

Þó margir ökumenn hafi lýst óánægju sinni með gatnamótin á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo eru þó enn fleiri sem segja þau ekki jafn flókin og þau líti út fyrir að vera. Galdurinn sé bara að halda sig innan 60 kílómetra hámarkshraðans og passa sig að horfa ekki niður.

Þá þurfi maður ekki að óttast það að beygja inn á ranga akrein, það sé hægt að snúa við um kílómetra eftir að úr gatnamótunum er komið.

Hér að neðan má sjá myndband BBC um Huangjuewan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×