Fótbolti

Freyr: Hefði getað sprungið í andlitið á okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, segir að það hefði ekki verið hægt að semja handritið að því sem hefur gengið á í íslenska landsliðinu undanfarna árið.

Freyr tilkynnti í dag 23 manna landsliðshóp sinn fyrir EM í Hollandi en í honum voru til að mynda Harpa Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Sandra María Jessen sem hafa lítið getað spilað í vor.

Landsliðsþjálfarinn sagði að það hefði verið erfitt að finna út úr því hvernig hópurinn ætti að vera samsettur og hverjar ættu að fá síðustu sætin.

„Við vitum hvaða fimmtán leikmenn eru líklegastir til að spila flestar mínútur á mótinu. En hin hlutverkin eru svo ofboðslega mikilvæg. Við þurftum heiðarleig svör frá reynslumiklum leikmönnum sem eru að fá minni hlutverk nú en þær hafa fengið á síðustu stórmótum,“ sagði Freyr.

„Ef ég hefði ekki rætt við þær núna en samt tekið þær með á mótið, þá hefði það getað sprungið í andlitið á okkur.“

Það hefur ýmislegt gengið á undanfarna mánuði. Dóra María Lárusdóttir og systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur eru allar með slitið krossband í hné og verða ekki með á EM. Freyr þurfti að hugsa stöðuna upp á nýtt og viðurkennir að það hafi um tíma verið erfitt. En hann telur sig nú vera með réttu uppskriftina. Leikur liðsins gegn Brasilíu í síðustu viku hafi gefið góð fyrirheit.

„Ég er núna ofboðslega spenntur og fullur tilhlökkunar á allan hátt til að takast á við þetta Evrópumót með þessum hætti sem við sýndum gegn Brasilíu.“

„Undankeppnin er búin. Það var góður taktur í liðinu þá og margir fallegir leikir sem verða aldrei teknir af okkur. En nú er nýtt upphaf og við erum að fara að takast á við þetta stóra verkefni með þessum hópi sem er fullur af orku.“


Tengdar fréttir

EM-hópurinn valinn: Harpa fer með til Hollands

Framherjinn Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni fer með íslenska landsliðinu á EM í Hollandi en EM-hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi í Laugardalnum rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×