Fótbolti

Enn skorar Matthías en Rosenborg tapaði stigum

Matthías er óstöðvandi þessa dagana.
Matthías er óstöðvandi þessa dagana. vísir/getty
Matthías Vilhjálmsson heldur áfram að skora fyrir topplið Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni en liðið mátti þakka fyrir að hafa fengið stig gegn Kristiansund á útivelli.

Matthías kom Rosenborg yfir á 30. mínútu leiksins en það var fimmta mark hans í deildinni í sumar. Matthías hefur einnig skorað sjö mörk í aðeins tveimur bikarleikjum í sumar en hann lagði svo upp annað mark Rosenborg í leiknum.

Hann hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu fjórum deildarleikjum Rosenborg og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins í deildinni.

Rosenborg var með 2-0 forystu að loknum fyrri hálfleik en Kristiansund skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik - Jean Alassane Mendy fyrstu tvö og Sondre Sörli það þriðja.

Það stefndi í óvæntan sigur Kristiansund en hinn danski Nicklas Bendtner reyndist bjargvættur Rosenborg er hann tryggði sínum mönnum stig með marki í uppbótartíma.

Rosenborg er á toppi deildarinnar með 29 stig, tveimur meira en Brann. Kristiansund er í þrettánda sætinu með sautján stig.

Tveir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Arnór Smárason, Birkir Már Sævarsson og Ögmundur Kristinsson voru í byrjunarliði Hammarby sem tapaði fyrir Häcken, 2-0. Arnór var tekinn af velli á 75. mínútu.

Hammarby er í níunda sæti deildarinnar með átján stig en í hinum leik kvöldsins vann Djurgården öruggan 4-1 sigur á Kalmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×