Enski boltinn

Everton útilokar ekki að fá Rooney

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rooney í búningi Everton í góðgerðaleik Duncans Ferguson.
Rooney í búningi Everton í góðgerðaleik Duncans Ferguson. vísir/getty
Everton útilokar ekki að fá Wayne Rooney aftur til félagsins samkvæmt heimildum Sky Sports.

Manchester United keypti Rooney af Everton árið 2004, þegar framherjinn var aðeins 18 ára gamall.

Rooney hefur leikið með United síðustu 13 ár og er orðinn markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Ekki er þó búist við því að hann verði áfram í herbúðum United.

Rooney hefur áður sagt að United og Everton séu einu félögin í ensku úrvalsdeildinni sem hann myndi spila fyrir.

Sky Sports greinir einnig frá því að Everton vilji fá Olivier Giroud sem eftirmann Romelus Lukaku sem er líklega á förum frá Bítlaborgarfélaginu.

Giroud byrjaði aðeins 11 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og tækifærum hans mun væntanlega ekki fjölga þegar Arsenal gengur frá kaupunum á Alexandre Lacazette frá Lyon.

Everton er búið að kaupa markvörðinn Jordan Pickford,hollenska miðjumanninn Davy Klaassen og nígeríska kantmanninn Henry Onyekuru í sumar. Sá síðarnefndi var þó strax lánaður til Anderlecht og mun spila með belgíska félaginu í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×