Fótbolti

Engar sannanir fyrir fréttum um að ISIS sé að skipuleggja hryðjuverkaárás á EM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrir utan Galgenwaard leikvanginn í Utrecht.
Fyrir utan Galgenwaard leikvanginn í Utrecht. Vísir/Getty
Hollenskir fjölmiðlar skrifuðu um það í gær að orðrómur væri um mögulega hryðjuverkaárás á einn leik á Evrópumóti kvenna í fótbolta sem hefst á sunnudaginn.

Leikurinn sem um ræðir er á milli Englands og Skotlands á miðvikudaginn kemur en kvöldið áður mæta stelpurnar okkar liði Frakklands í sínum fyrsta leik á mótinu.

Nágrannarnir England og Skotland mætast kvöldið eftir í sínum fyrsta leik í D-riðli EM í Hollandi sem fer fram á Galgenwaard leikvanginum í Utrecht.

Það er ekki langt frá Hollandi til Belgíu og Frakklands en bæði löndin hafa orðið fyrir barðinu á hryðjuverkaárásum ISIS á síðustu mánuðum.

De Telegraaf skrifaði um málið en yfirvöld í Hollandi hafa í framhaldinu fullvissað alla um að það sé öruggt að koma til Hollands á Evrópumótið.

Það hafa ekki fundist sannanir fyrir því að ISIS ætli að ráðast á fyrrnefndan leik en skipuleggjendur Evrópumótsins segjast líka vinna náið með yfirvöldum í Hollandi til að gæta fyllsta öryggis keppenda og áhorfenda á leiknum sem um ræðir sem og á öðrum leikjum keppninnar.

Borgerstjórinn í Utrecht, Jan van Zanen, ætlar ekki að taka neina áhættu og allar öryggisráðstafanir hafa verið hertar. Engin umferð verður leyfð í nágrenni leikvangsins og fleiri lögreglumenn verða á svæðinu.

Íslenska kvennalandsliðið ferðast til Hollands í dag en fyrsti leikur liðsins er síðan á þriðjudaginn. Það má búast við að fjölmargir Íslendingar séu líka á leiðinni til Hollands á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×