Erlent

Borgarstjóri sem Duterte sakaði um ólögleg fíkniefnaviðskipti skotinn til bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjölmargir hafa látið lífið í blóðugri herferð Duterte gegn fíkniefnum.
Fjölmargir hafa látið lífið í blóðugri herferð Duterte gegn fíkniefnum. Vísir/AFP
Filippseyskur borgarstjóri, sem forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, hafði sakað um tengsl við ólögleg fíkniefnaviðskipti, var skotinn til bana í áhlaupi lögreglu á heimili hans í gær.

Í frétt New York Times segir að Reynaldo Parojinog, borgarstjóri borgarinnar, Ozamiz á Filippseyjum, hafi verið drepinn á heimili sínu á sunnudagsmorguninn er skotbardagi braust út á milli lögreglu og öryggisvarða borgarstjórans. Kona hans, Susan Parojinog, lést einnig í áhlaupinu auk fimm annarra viðstaddra. Lögregluþjónar höfðu komið á staðinn til að handtaka Parojinog, konu hans og þrjá fjölskyldumeðlimi til viðbótar.

Þá voru fimm manns skotnir til bana í öðru áhlaupi lögreglu á hús sem var í eigu fjölskyldu Parojinog.

Liður í blóðugum aðgerðum gegn verslun með fíkniefni á Filippseyjum

Nova Princess Parojinog-Echavez, dóttir Parojinog og varaborgarstjóri Ozamiz, var á meðal fjölmargra sem handteknir voru í aðgerðum lögreglu í gær.

Í tilkynningu frá lögreglu á Filippseyjum segir að lögreglumenn hafi gert upptæk skotvopn, nokkur seðlabúnt og eitthvert magn af metamfetamíni á heimili Parojinog í gær. Einn lögreglumaður særðist í átökunum en hann er ekki sagður í lífshættu.

Duterte sakaði borgarstjórann og dóttur hans, varaborgarstjórann, um að vera viðriðin ólögleg fíkniefnaviðskipti í ræðu sem sjónvarpað var í ágúst á síðasta ári. Feðginin voru á meðal fjölmargra embættismanna sem Duterte hefur sakað um fíkniefnatengd brot. Þau þvertóku bæði fyrir ásakanir forsetans.

Parojinog er þriðji filippseyski borgarstjórinn sem drepinn er í átaki yfirvalda gegn fíkniefnaviðskiptum í landinu. Gríðarlegur fjöldi meintra fíkniefnasala og –neytenda hefur látið lífið í aðgerðunum, fyrirskipuðum af Duterte, síðan hann var kjörinn forseti í fyrra.


Tengdar fréttir

Lögreglusveitir Duterte nota sjúkrahús til að fela morðin

Reuters-fréttastofan fullyrðir að lögreglumenn á Filippseyjum hafi flutt grunaða glæpamenn sem þeir hafa skotið til bana á sjúkrahús til að eyða sönnunargögnum og fela aftökurnar. Þúsundir manna hafa verið myrtir í stríði Duterte forseta gegn fíkniefnum.

Hlé á morðherferð gegn fíkniefnum

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur ákveðið að stöðva tímabundið herferð lögreglunnar gegn fíkniefnum. Áður en haldið verður áfram þurfi að uppræta spillingu innan lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×