Enski boltinn

Aguero á leið í bann?

Elías Orri Njarðarson skrifar
Aguero gæti verið í veseni eftir leikinn í dag
Aguero gæti verið í veseni eftir leikinn í dag visir/epa
Sky Sports greinir frá því að Sergio Aguero, framherji Manchester City, hafi ýtt við öryggisverði í fagnaðarlátunum eftir að þeir skoruðu annað markið sitt á móti Bournemouth í dag.

Aguero, sem byrjaði á varamannabekk City í dag, er sagður hafa ýtt við öryggisverði sem var að hindra stuðningsmann Manchester City í að koma inn á völlinn í fagnaðarlátunum sem mynduðust er Raheem Sterling tryggði City sigurinn.

Mikil fagnaðarlæti brutust út eftir markið og þurftu öryggisverðir ásamt lögreglumönnum á vellinum að hafa sig alla við í að stöðva áhorfendur City sem ærðust úr fögnuði.

Eftir leikinn gaf öryggisvörðurinn umræddi skýrslu hjá lögreglu og greindi hann frá því að argentíski framherjinn hafi ýtt honum. Rannsókn á málinu er hafin en ef Aguero er fundinn sekur um þetta athæfi gæti hann átt yfir höfði sér bann frá fótboltanum.

Aguero setti á Twitter síðu sína í dag að hann væri saklaus af þessum ásökunum en athyglisvert verður að sjá hvernig þessu máli lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×