Fótbolti

Úrúgvæ og Argentína vilja sækja um að halda HM á aldarafmælinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Argentínska goðsögnin Diego Maradona með bikarinn góða.
Argentínska goðsögnin Diego Maradona með bikarinn góða. Vísir/Getty
Úrúgvæ og Argentína hyggjast á næstu vikum tilkynna að löndin muni sameinast um umsókn um að halda lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2030, hundrað árum eftir að hún fór fyrst fram.

Þetta sagði Tabare Vazquez í tilefni af heimsókn sinni til kollega síns í Argentínu, Mauricio Macri, í lok mánaðarins.

Úrúgvæ varð fyrsti heimsmeistari sögunnar eftir að hafa unnið keppnina á heimavelli en löndin tvö hafa unnið að undirbúningi umsóknarinnar síðan í upphafi síðasta árs.

HM var síðast haldið í Suður-Ameríku árið 2014, er Brasilía var gestgjafi keppninnar. Argentína hefur einu sinni haldið keppnina áður en það var árið 1978.

Þá hefur einnig verið sagt frá því að forseti Suður-Kóreu vilji leggja fram umsókn í keppnina með Japan, Kína og Norður-Kóreu í því markmiði að koma á friði á svæðinu - ekki síst við grannþjóð sína í norðri.

HM 2018 verður haldin í Rússlandi og svo í Katar eftir fimm ár. Ekki verður tilkynnt hvar HM 2026 verður haldin fyrr en í maí árið 2020 en tvær umsóknir liggja fyrir um keppnina - sameiginleg umsókn frá Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum annars vegar og Marokkó hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×