Innlent

Fá milljónabætur og halda álfahólnum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Álfahólnum við Reykjamörk 2 verður þyrmt.
Álfahólnum við Reykjamörk 2 verður þyrmt. Mynd/Anton Örn Pálsson
Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi Edenreitsins í Hveragerði mun ein af byggingunum þar ganga inn á núverandi lóð fjölbýlishúss á Reykjamörk 2. Við þetta minnkar á lóð fjölbýlishússins um 309 fermetra og verður 1.790 fermetrar að því er fram kemur í minnis­blaði sem Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri lagði fyrir bæjarráð.

Aldís rekur að fulltrúar húsfélagsins um íbúðirnar tíu sem eru í Reykjamörk 2 hafi komið á fund hennar og skipulagsfulltrúa bæjarins. Rætt hafi verið um mögulegar bætur vegna skerðingar lóðarinnar. En íbúarnir höfðu einnig áhyggjur af ósýnilegum sambýlingum sínum úti á lóðinni.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjór
„Fulltrúar húsfélagsins lögðu áherslu á að hóli sem er í suðvesturhorni lóðarinnar að Reykjamörk 2 verði ekki raskað en íbúar telja þarna sé um álfahól að ræða,“ skýrir bæjarstjórinn frá í minnisblaði sínu.

Aldís leggur í minnisblaðinu fram fimm atriði sem hún segir að fulltrúar húsfélagsins hafi samþykkt fyrir sitt leyti til að leysa málið. Í fyrsta lagi verði borgaðar 2,5 milljónir króna í bætur vegna lóðarskerðingarinnar. Ákvæði er einnig vegna trjágróðurs á lóðinni. „Álfahólnum sem talið er að sé á lóðinni verði þyrmt og séð til þess að rask umhverfis hann verði sem minnst,“ segir enn fremur í minnisblaðinu sem bæjarráð samþykkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×