Erlent

Segir stjórnvöld Búrma vernda alla íbúa

Samúel Karl Ólason skrifar
Rohingjamúslimar, nýkomnir til Bangladess.
Rohingjamúslimar, nýkomnir til Bangladess. Vísir/AFP
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, sem gengur einnig undir nafninu Mjanmar, segir rangar upplýsingar og falsaðar myndir gefa skakka mynd af ástandinu í Rakhine-héraði. Þaðan hafa nærri því 150 þúsund rohingjamúslimar flúið til Bangladess vegna átaka í héraðinu á einungis tólf dögum. Hún segir hryðjuverkamönnum vera um að kenna.

Átökin hófust þegar meðlimir vígahóps sem inniheldur rohingjafólk réðst á lögreglustöðvar í héraðinu. Þá hófst umfangsmikil sókn hers Búrma en flóttamenn segja herinn og vopnaða hópa fólks hafa brennt heilu þorpin til grunna og beitt rohingjafólk miklu ofbeldi.

Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ofbeldið geti leitt til hörmunga.

Samkvæmt tilkynningu frá stjörnvöldum sagði Aung San Suu Kyi í samtali við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, að ríkisstjórn hennar væri að vernda alla íbúa Rakhine héraðs. Erdogan hafði kallað eftir því að þjóðarleiðtogar heimsins kæmu rohingjafólkinu til aðstoðar og sagði þau vera fórnarlömb þjóernishreinsana, samkvæmt frétt Reuters.

Lengi setið undir ofsóknum

Rohingjafólkið hefur búið í Búrma um langt skeið og hefur verið lýst sem þeim minnihlutahópi í heiminum sem býr við mestar ofsóknir. Talið er að þeir séu um 1,1 milljón og búa langflestir þeirra í Rakhine héraði í vesturhluta Búrma en stjórnvöld þar hafa ekki viðurkennt þau sem borgara. Rohingjafólkið er íslamstrúar en meirihluti íbúa Búrma eru búddistar.

Yfirvöld Búrma hafa verið sökuð um þjóðernishreinsanir og að reyna að reka rohingjafólkið frá landinu.

Sakaðir um notkun jarðsprengna

Í tilkynningu á Facebooksíðu Utanríkisráðuneytis Búrma er hvergi minnst á flótta rohingjafólksins. Þar segir einungis að ríkisstjórn landsins muni vinna með „vinum sínum um heim allan“ að því að koma í veg fyrir að hryðjuverkahópar festi rætur í Búrma.

Embættismenn í Bangladess segja Reuters að her Búrma hafi komið nýjum jarðsprengjum fyrir á landamærum ríkjanna til að koma í veg fyrir að rohingjafólkið snúi aftur yfir landamærin. Heimildarmenn fréttaveitunnar segja að Bangladess muni mótmæla jarðsprengunum opinberlega í dag.

Her Búrma segir hins vegar að sprengjunum hafi verið komið fyrir á tíunda áratuginum. Samkvæmt frétt BBC segir talsmaður Aung San Suu Kyi að hryðjuverkamenn hafi mögulega komið sprengjunum fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×