Erlent

Rúmlega 120 þúsund hafa flúið frá Búrma á tveimur vikum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rohingjafólkið hefur flútið norður til Bangladess en talið er að um 400 þúsund manns sitji enn föst á átakasvæðum.
Rohingjafólkið hefur flútið norður til Bangladess en talið er að um 400 þúsund manns sitji enn föst á átakasvæðum. Vísir/EPA
Talið er að um 123 þúsund rohingjamúslimar hafi flúið frá Búrma vegna ofbeldis á einungis tveimur vikum samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Rohingjafólkið hefur flútið norður til Bangladess en talið er að um 400 þúsund manns sitji enn föst á átakasvæðum.

Herinn í Búrma, sem einnig gengur undir nafninu Mjanmar, er sagður hafa beitt ofbeldi gegn rohingjafólkinu eftir að vígamenn úr röðum þeirra réðust á lögreglustöðvar. Flóttamenn segja herinn og vopnaða hópa borgara brenna þorp rohingjafólksins og drepa almenna borgarar. Markmið þeirra sé að reka minnihlutahópinn á brott úr Búrma.

Þá hafa yfirvöld Búrma komið í veg fyrir að hjálparsamtök geti aðstoðað rohingjafólkið samkvæmt frétt Guardian og hefur ekki verið hægt að flytja matvæli, vatn og lyf á svæðið.

Réttindalaust fólk

Rohingjafólkið hefur búið í Búrma um langt skeið og hefur verið lýst sem þeim minnihlutahópi í heiminum sem býr við mestar ofsóknir. Talið er að þeir séu um 1,1 milljón og búa langflestir þeirra í Rakhine héraði í vesturhluta Búrma en stjórnvöld þar hafa ekki viðurkennt þau sem borgara. Rohingjafólkið er íslamstrúar en meirihluti íbúa Búrma eru búddistar.

Yfirvöld Búrma hafa verið sökuð um þjóðernishreinsanir og að reyna að reka rohingjafólkið frá landinu.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna sagði BBC að tvær flóttamannabúðir samtakanna í Bangladess séu fullar. Flóttafólk frá Búrma hefur brugðið á það ráð að sofa undir berum himni og að byggja sér skýli fyrir utan búðirnar.

Biðla til Aung San Suu Kyi

Nokkrar þjóðir í Asíu hafa lýst yfir verulegum áhyggjum vegna ástandsins í Búrma og hefur verið biðlað til Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, að grípa inn í og koma rohingjafólkinu til varnar.

Aung San Suu Kyi er friðarverðlaunahafi Nóbels en hún hefur ekki tjáð sig um ofbeldið. 

Rakhinehérað í Mjanmar

Tengdar fréttir

Nærri 20.000 flúið á viku

Þjóðflokkurinn flýr átök í Rakhine-héraði Bangladess en átökin í héraðinu versnuðu til muna þegar Rohingya-múslimar réðust á þrjátíu lögreglustöðvar á föstudag. Yfirvöld svöruðu árásunum með hervaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×