Fótbolti

Albert sá um Slóvaka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert gerði útslagið gegn Slóvakíu.
Albert gerði útslagið gegn Slóvakíu. vísir/anton
Albert Guðmundsson skoraði bæði mörkin þegar íslenska fótboltalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann 0-2 sigur á Slóvakíu í undankeppni EM 2019 í Poprad í dag.

Þetta var afar mikilvægur sigur hjá íslenska liðinu eftir tapið fyrir Albaníu í síðasta mánuði. Með sigrinum fór Ísland upp úr sjötta og neðsta sæti riðils 2 og upp í 5. sætið. Íslenska liðið er með þrjú stig eftir tvo leiki.

Strax á 8. mínútu kom Albert Íslandi í 0-1. Hann fékk þá boltann frá Tryggva Hrafni Haraldssyni, lék á tvo varnarmenn og lyfti boltanum smekklega yfir Marek Rodák í marki Slóvaka.

Miðvörðurinn úr Mosfellsbænum, Axel Óskar Andrésson, var nálægt því að auka muninn í seinni hálfleik en hann setti boltann tvívegis í tréverkið.

Slóvakar sóttu undir lokin en tókst ekki að jafna. Þeir kláruðu leikinn manni færri eftir að fyrirliðinn Jakub Hromada fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 90. mínútu.

Í uppbótartíma bætti Albert öðru marki við eftir sendingu frá Jóni Degi Þorsteinssyni. Lokatölur 0-2, íslenska liðinu í vil.

Næsti leikur Íslands er gegn Albaníu á útivelli á þriðjudaginn kemur. Í nóvember mæta íslenska liðið svo því spænska og eistneska á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×