Fótbolti

Hinn leikurinn í riðli íslensku stelpnanna endaði 22-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar í 17 ára landsliðinu.
Stelpurnar í 17 ára landsliðinu. Mynd/Knattspyrnusamband Íslands
Íslenska sautján ára landslið kvenna í fótbolta vann 2-0 sigur á Aserbaídsjan í fyrsta leik liðsins í  riðlakeppni EM í Aserbaídsjan.

FH-ingurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir skoraði fyrra markið á 9. mínútu leiksins en Eyjastelpan Clara Sigurðardóttir það síðara á 46. mínútu. Víkingurinn Ísafold Þórhallsdóttir átti stoðsendinguna á Clöru.

Íslensku stelpurnar eru einnig í riðli með Spáni og Svartfjallalandi sem áttust við í hinum leik riðilsins í dag.

Það var afar ójafn leikur því þær spænsku unnu Svartfellingana 22-0 eftir að hafa verið 8-0 yfir í hálfleik.

Claudia Pina skoraði 7 mörk og gaf 2 stoðsendingar fyrir spænska liðið, Eva Maria Navarro var með 4 mörk og 3 stoðsendingar og varamaðurinn Bruna Vilamala Costa var með 3 mörk og 3 stoðsendingar.

22 af 32 skotum spænska liðsins á markið enduðu í netinu en lið Svartfjallalands náði ekki einu skoti allan leikinn.

Íslensku stelpurnar mæta Svartfjallalandi í næsta leik en svo verður úrslitaleikurinn væntanlega á móti Spáni í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×