Innlent

Fagnar fimmtíu árum á sama leikskólanum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þóra María umkringd börnum sem eru á leikskólanum nú.
Þóra María umkringd börnum sem eru á leikskólanum nú. Vísir/Ernir
Á dögunum fagnar Þóra María Stefánsdóttir fimmtíu ára starfsafmæli á leikskólanum Laugasól. Á þeim tíma hefur hún kennt fjölda barna og meðal annars börnum barna sem hún kenndi fyrir mörgum árum.

„Ég hef verið þarna lengi en ég er ekki á þeim buxunum að hætta. Ég ætla hins vegar að minnka töluvert við mig núna,“ segir Þóra. Hún bætir því við að hún sé ekki menntaður leikskólakennari en hafi starfað sem leiðbeinandi lungann úr ævi sinni.

„Það hafa fjölmörg börn verið í Laugasól á tíma mínum hér. Það eru nokkur börn á leikskólanum sem eiga foreldra sem ég leit eftir á árum áður. Mér finnst það svolítið skrítið,“ segir Þóra og hlær. Enn sem komið er hafi það þó ekki gerst að hún hafi kennt þremur ættliðum.

„Það var reyndar stúlka að vinna með mér hérna sem var að eignast barn fyrir stuttu. Ég kenndi pabba hennar hér í eina tíð. Ég hugsa að ég nái nú ekki þriðja liðnum.“

Aðspurð um eftirminnilegustu dagana á starfsævi sinni segir Þóra að henni hafi verið komið mjög á óvart nú á 50 ára starfsafmælinu. Þá hafi systir hennar smalað saman í veislu og fullt af fólki mætt. Það hafi einnig verið uppi á teningnum fyrir tíu árum síðan þegar hún náði þeim árangri að starfa í fjörutíu ár á Laugasól.

Á starfsævi Þóru hefur leikskólinn breyst töluvert. Til að mynda hefur fjöldi barna á leikskólanum aukist og húsnæði stækkað og breyst í samræmi við það. Þá sameinaðist Laugasól leikskólanum Lækjarborg. Þóra segir það í eðli starfsins að engir tveir dagar séu eins. Hún komi misjafnlega þreytt heim í lok hvers dags.

„Ég vil sem minnst segja um hvað eða hvort eitthvað þurfi að bæta í starfinu. Það verða leikskólastjórarnir að sjá um. Kaupið mætti hins vegar vera hærra,“ segir Þóra að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×