Innlent

Auknar líkur á að brúin verði opnuð fyrir gangandi umferð á morgun

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Bygging bráðabirgðabrúar við Steinavötn gengur vel.
Bygging bráðabirgðabrúar við Steinavötn gengur vel. Vísir
Mikill gangur er í brúarsmíðinni yfir Steinavötn og eru auknar líkur á að gangandi umferð verði hleypt á brúna. Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar hefur unnið hörðum höndum síðustu daga og voru til klukkan þrjú í nótt.

Ljúka þarf að skoða aðstæður og meta ástand brúarinnar í dag og að því loknu verður tekin ákvörðun hvort brúin verði opnuð fyrir gangandi umferð. Umferð yrði þá leyfð frá og með morgundeginum. Áður en það gerist þarf að álagsprófa brúna og reikna út burðarþolið. Niðurstaða mun liggja fyrir eftir nokkra tíma.

Í frétt á vef Vegagerðarinnar kemur fram að búið er að veita vatninu frá laskaða stöplinum en grafist hafði undan honum. Búið er að reka niður staura í fjögur ok af átta sem munu bera þessa 104 metra löngu bráðabirgðabrú. Stefnt er að því að ljúka að reka staurana niður í dag.

Vonast menn til að hægt verði að ljúka smíðinni á föstudaginn. Reikna má með að fljótlega verði byrjað að setja upp stálbitana á okin. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við Vísi að betur gangi en búist var við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×