Innlent

Styttir upp á Suðausturlandi með deginum

Bjarki Ármannsson skrifar
Brúin yfir Steinavötn er áfram lokuð. Hún er hluti af þjóðvegi 1.
Brúin yfir Steinavötn er áfram lokuð. Hún er hluti af þjóðvegi 1. loftmyndir
Enn er smávegis rigning eða súld á Suðausturlandi þar sem starfsmenn Vegagerðarinnar vinna nú að því að koma upp bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í Suðursveit svo hægt sé að opna hringveginn að nýju.

Brúin skemmdist í þeim miklu vatnavöxtum sem urðu í vikunni en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mun stytta upp með deginum. Það dregur áfram úr vatnavöxtum á svæðinu þó sú litla rigning sem nú er verði ef til vill til þess að það dragi hægar úr en ella.

Hringvegurinn var opnaður við Hólmsá, vestan Hornafjarðar, í gærkvöldi en verður þó áfram lokaður við Steinavötn næstu daga á meðan verið er að byggja bráðabirgðabrúna. Björgunarsveitir og lögregla vakta svæðið og segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi að vísa þurfi frá fjölda ferðamanna sem virðist ekki hafa kynnt sér eða fengið upplýsingar um ástandið.

Samkvæmt spá Veðurstofunnar á að snúa í norðlæga átt í kvöld eða nótt og mega starfsmenn Vegagerðarinnar á svæðinu búast við fremur hvössu en björtu veðri eftir það. 

Jarðvegsskriður féllu á nokkrum stöðum í vikunni þegar úrkoma var sem mest og Veðurstofan segir áfram hættu á skriðuföllum á svæðinu.


Tengdar fréttir

Þjóðvegurinn lokaður í viku hið minnsta

Þjóðvegur 1 er lokaður á tveimur stöðum í kjölfar mikilla vatnavaxta á Suðausturlandi undanfarna daga. Brúin yfir Steinavötn er afar löskuð og verður líklega ekki farið í lagfæringar að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×