Innlent

Tímamótasamningur við UMFÍ

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ og Kristján Þór Júlíusson skrifuðu undir samning um ríkisframlag til UMFÍ til næstu þriggja ára.
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ og Kristján Þór Júlíusson skrifuðu undir samning um ríkisframlag til UMFÍ til næstu þriggja ára. UMFÍ
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, skrifaði undir tímamótasamning við UMFÍ á sambandsþingi félagsins um ríkisframlag til næstu þriggja ára. Fimmtugasta sambandsþing UMFÍ fór fram á Hótel Hallormsstað um helgina. Er þetta fyrsti samningurinn sem stjórnvöld gera við félagasamtök og er til lengra tíma en eins árs í senn. Kristján Þór sagði samninga til nokkurra ára verða gerða við fleiri félagasamtök á næstunni. „Þetta gefur félögum færi á að skipuleggja sig til lengri tíma,“ sagði ráðherrann.

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, voru gestir þingsins ásamt fleiri þingmönnum Norðausturkjördæmis og sveitarstjórnarmönnum.

Haukur Valtýsson endurkjörinn formaður

Haukur Valtýsson var endurkjörinn formaður UMFÍ til næstu tveggja ára en hann tók við formennsku í félaginu árið 2015.

Á þinginu var einnig ákveðið að halda aukaþing UMFÍ þar sem rætt verður um inngöngu íþróttabandalaga að UMFÍ. Gangi það eftir fá flest íþróttabandalög landsins stöðu sambandsaðila UMFÍ og myndi fjöldi félaga innan UMFÍ fjölga gríðarlega.

Tillögur um lagabreytingar er varða inngöngu íþróttabandalaga voru ýmist felldar eða vísað frá á þinginu þar sem ekki náðist tilskyldur 2/3 hlutar atkvæða til að breyta lögum UMFÍ. Tillaga um að fela stjórn að boða til aukaþings varðandi málið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×