Erlent

Keníukosningar kostuðu einn unglingsdreng lífið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kjördagur í Keníu einkenndist af ofbeldi.
Kjördagur í Keníu einkenndist af ofbeldi. Nordicphotos/AFP
Gengið var til forsetakosninga í Keníu í gær í annað sinn á árinu. Kosningarnar sem fóru fram fyrr á árinu voru ógildar vegna ógagnsæis og galla á framkvæmd þeirra. Var því boðað til nýrra kosninga.

Síðast var kosið á milli Uhuru Kenyatta, sitjandi forseta, og stjórnarandstöðuleiðtogans Raila Odinga. Búist var við því að slíkt hið sama myndi gerast núna en Odinga dró framboð sitt til baka á dögunum. Ástæðuna sagði Odinga vera þá að hann hafi viljað fresta kosningunum þar sem ekki hefði tekist að sýna fram á að vankantar á framkvæmd ólöglegu kosninganna hefðu verið lagaðir.

Vegna þessa sniðgengu stuðningsmenn Odinga kosningar gærdagsins og mótmæltu harðlega. Í helstu vígjum stjórnarandstæðinga í landinu mættu stjórnarandstæðingar á kjörstað. Ekki til þess að kjósa heldur til þess að koma í veg fyrir að aðrir kysu.

Í hafnarborginni Kisumu enduðu slík mótmæli með ósköpum. Lögregla skaut unglingsdreng sem var að mótmæla og hann lést stuttu síðar af sárum sínum. Lögregla stóð vörð um kjörstaði víðs vegar um landið og greindi BBC frá því að tugir þúsunda lögreglumanna væru staddir víðs vegar um landið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×