Erlent

Prinsar og ráðherrar handteknir í herferð gegn spillingu í Sádí-Arabíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mohammed krónprins hefur áður lagt til viðamikla áætlun um félagslegar og efnahagslegar breytingar í Sádí-Arabíu.
Mohammed krónprins hefur áður lagt til viðamikla áætlun um félagslegar og efnahagslegar breytingar í Sádí-Arabíu. Vísir/AFP
Ellefu prinsar, fjórir ráðherrar og tugir fyrrverandi ráðherra voru handteknir á vegum nýrrar eftirlitsnefndar með spillingu í Sádí-Arabíu í gær. Krónprinsinn Mohammed bin Salman, sem fer fyrir nefndinni, hefur heitið því að nútímavæða landið.

Ekki hafa verið gefin upp nöfn þeirra handteknu né hvað þeir eru sakaðir um, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Handtökurnar áttu sér stað aðeins nokkrum klukkustundum eftir að spillingarnefndin var stofnuð með konunglegri tilskipun Salmans konungs.

New York Times fullyrðir aftur á móti að Alwaleed bin Talal, einn auðugustu manna heims, sé á meðal þeirra sem voru handteknir. Talal á eða hefur átt hluti í stórfyrirtækjum eins og News Corp, Citigroup, Twitter auk þess sem hann á gervihnattasjónvarpsstöðvar með mikið áhorf í arabaheiminum.

Sérfræðingur BBC í öryggismálum telur að aðgerðirnar séu liður í tilraunum Mohammeds krónsprins til að festa völd sín í sessi og koma á umbótum í Sádí-Arabíu. Áður höfðu yfirmenn þjóðvarðliðs landsins verið reknir og þeim skipt út.

Mohammed krónprins, sem er 32 ára gamall, hefur sagt að „hófsamt íslam“ sé lykilatriði í áætlun hans um að nútímavæða Sádí-Arabíu. Í því skyni hygðist hann svæla út leifar öfgahyggju á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×