Erlent

Bowe Bergdahl sleppur við fangelsisvist

Samúel Karl Ólason skrifar
Bergdahl yfirgaf stöðu sína í Afganistan árið 2009 og gekk frá herstöðinni sem herdeild hans hélt til í.
Bergdahl yfirgaf stöðu sína í Afganistan árið 2009 og gekk frá herstöðinni sem herdeild hans hélt til í. Vísir/AFP
Bandaríski hermaðurinn Bowe Bergdahl mun sleppa við fangelsisvist. Dómari herdómstóls komst að þeirri niðurstöðu í dag. Þess í stað verður Bergdahl vísað frá hernum með skömm og mun hann ekki eiga rétt á bótum og lífeyri. Hann mun einnig sæta fjársektum og var lækkaður í tign.

Bergdahl yfirgaf stöðu sína í Afganistan árið 2009 og gekk frá herstöðinni sem herdeild hans hélt til í. Skömmu seinna var hann handsamaður af Talíbönum og var hann fangi þeirra í fimm ár.

Sjá einnig: Talíbanar fagna fangaskiptum

Saksóknarar fóru fram á harðan dóm vegna umfangsmikilla meiðsla sem aðrir hermenn urðu fyrir við leitina að Bergdahl. Þeir vildu að Bergdahl yrði dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar. Hann játaði að hafa yfirgefið stöðu sína og herinn og að hafa ekki hegðað sér sem hermaður frammi fyrir óvini. Hann átti yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi.

Samkvæmt AP fréttaveitunni tók dómarinn þó tillit til þess að þegar Bergdahl játaði brot sín hefði hann ekki reynt að semja um vægari refsingu eða neitt slíkt. Þá var einnig tekið til refsiminnkunar að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði opinberlega kallað eftir því að hann yrði tekinn af lífi.



Í byrjun vikunnar bar Bergdahl vitni og baðst hann afsökunar á því að hafa sett aðra hermenn í hættu.

„Ég gerði hræðileg mistök. Að segja að ég sé miður mín er ekki nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×