Innlent

Nærri þriðjungur kvenna óttast að verða fyrir kynferðisofbeldi í miðborginni og margar forðast illa upplýstar götur

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Nær enginn karlmaður, sem tók afstöðu í nýrri könnun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um öryggi í miðborginni, hafði áhyggjur af því að verða þolandi kynferðisofbeldis - á sama tíma og þrjár af hverjum tíu konum höfðu slíkar áhyggjur. Þá eru konur mun líklegri til að hegða sér á ákveðin hátt til þess að auka öryggi sitt á svæðinu.

Í samstarfi við Ríkislögreglustjóra hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gert árlegar kannanir í rúm 10 ár þar sem spurt er meðal annars út í öryggistilfinningu Íslendinga  í miðborg Reykjavíkur.  Í vor var slík könnun framkvæmd  og vinna þær Rannveig Þórisdóttir og Sædís Jana Jónsdóttir, félagsfræðingar hjá lögreglunni, nú að því að taka saman helstu niðurstöður.

„Þetta eru þarna um rúmur helmingur sem upplifir óöryggi í miðborginni en þá erum við að tala um eftir myrkur eða um helgar,“ segir Sædís Jana.

Á síðasta áratugnum hefur þeim þó fækkað sem segjast hræddir í miðborginni en síðustu fjögur ár hefur talan haldist nokkuð stöðug. „Við erum að sjá fleiri sem eru öruggir. Það má vera að þessi stöðugleiki síðustu ára komi til vegna þess að það er fleira fólk í miðborginni eins og ferðamenn sem eru ekki þarna til að skemmta sér eða eru ölvaðir heldur meira svona almennt bara á ferðinni og fólk svona upplifi meira öryggi í þeim hópi,“ segir Rannveig.

Í ár var ákveðið að spurja nánar út í öryggistilfinningu. Í ljós kom að karlar og konur höfðu jafn miklar áhyggjur af því að verða þolendur ofbeldisbrota, líkt og líkamsárása. Mikill kynjamunur er hins vegar á öryggistilfinningu kynjanna þegar kemur að kynferðisbrotum.

„Til dæmis hafði nær engin karmaður áhyggjur af því að verða þolandi kynferðisofbeldis  á árinu 2016 en þrjár af hverjum tíu konum,“ segir Sædís Jana.

Þá kom mikill kynjamunur í ljós á varnarhegðun fólks en þrátt fyrir að karlar hefðu jafn miklar áhyggjur af því að verða þolendur ofbeldisbrota almennt hafði rúmlega helmingur þeirra ekki gripið til neinna aðgerða til að auka öryggi sitt. Konur voru hins vegar mun líklegri til að hegða sér á ákveðinn hátt til þess að auka öryggi sitt.

„Eins og að forðast illa upplýst svæði og götur. Ásamt því að vera tilbúnar að hringja á neyðarlínu eða einhvern annan nákominn aðila. Með símann sinn tilbúin. Og svo sáum við líka mikinn kynjamun á því  að konur voru meira að passa drykkina sína á skemmtistöðum til að reyna koma í veg fyrir byrlanir,“ segir Rannveig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×