Innlent

Kosningunni Hverfið mitt lýkur á miðnætti: Íbúar í Reykjavík ráðstafa 450 milljónum í framkvæmdir

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Pétanque-völlur var settur í Gufunes eftir að íbúar í Reykjavík völdu hann í kosningunni Hverfið mitt.
Pétanque-völlur var settur í Gufunes eftir að íbúar í Reykjavík völdu hann í kosningunni Hverfið mitt. Reykjavíkurborg
Í dag er síðasti dagurinn í kosningunni Hverfið mitt, það sem íbúar í Reykjavík ráðstafa alls 450 milljónum í framkvæmdir í hverfunum. Kosningu lýkur á miðnætti á síðu verkefnisins Hverfið mitt.

Það eru 218 hugmyndir sem hægt er að velja á milli í ár, og næstum 10.000 manns hafa þegar kosið. Kosningin er bindandi, og það sem hlýtur kosningu núna verður framkvæmt af borginni næsta sumar. Allir sem hafa lögheimili í Reykjavík og eru fæddir árið 2001 eða fyrr geta tekið þátt og eru íbúar hvattir til þess að taka þátt í þessari ákvörðun.

Síðustu ár hafa íbúar ráðstafað fjármagni í gegnum þessa kosningu í mörg áhugaverð og skemmtileg verkefni. Má þar nefna Pétanque-völl við Gufunesbæ og á Klambratúni, frisbígolfvöll á Klambratúni og í Leirdal, hringtorg í Hraunbæ, við Glæsibæ, á Kirkjusandi og á Rauðarárstíg, Vatnsrennibraut í sundlaug Grafarvogs, ljóð á gangstéttum í Vesturbæ sem birtast í rigningu og fleira.

Á meðal þess sem kosið er um í ár má finna hugmyndir um  leiktæki, útiæfingatæki, lýsingu, körfuboltakörfur, bekki og ruslafötur, listaverk, hjólabraut, gönguleiðir, hraðahindranir, upplýsingaskilti, sparkvellir, hundagerði, parkour svæði drykkjarfonta og margt fleira sem væri hægt að fjármagna eftir þessa kosningu.  

Íbúar í Reykjavík geta kosið HÉR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×