Innlent

Háskóla Íslands óheimilt að meina nemanda aðgang að gömlum prófum

Anton Egilsson skrifar
Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Vísir/GVA
Háskóli Íslands ber að veita nemanda skólans aðgang að eldri prófum í námskeiði sem hann situr en skólinn hafði áður synjað beiðni nemandans um aðgang að þeim. Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem birtur var í gær.

Tildrög málsins voru þau að nemandinn óskaði þess við Háskóla Íslands að fá aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði sem kennt er við skólann. Háskóli Íslands tók afstöðu til beiðninnar þar sem nemandanum var synjað um aðgang að prófunum á grundvelli þess að samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga væru umrædd próf undanþegin upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Kærði nemandinn ákvörðun skólans til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Í rökstuðningi Háskóla Íslands til synjunar nemandans á aðgang að prófunum kom meðal annars fram að fyrirkomulag prófsins sé með þeim hætti að stór hluti spurninganna á hverju prófi hafi verið lagður fyrir áður, sumar oft áður og mörgum sé aðeins breytt lítillega milli ára. Sé það því allt eins mögulegt að um sama prófið sé að ræða á milli ára, þ.e. að próf sem lagt verði fyrir í framtíðinni verði eins og próf sem lagt hefur verið fyrir áður eða lítillega breytt. Því myndi aðgangur að eldri prófum í námskeiðinu hafa það í för með sér að próf í námskeiðinu yrði þýðingarlaust eða næði ekki tilætluðum árangri þar sem það væri á almannavitorði.

Úrskurðarnefndin féllst ekki á þær röksemdir Háskóla Íslands að með því að veita aðgang að eldri prófum verði þau próf sem síðar yrðu lögð fyrir þýðingarlaus eða komi ekki til með að skila tilætluðum árangri.

„Í umsögn Háskóla Íslands er því ekki haldið fram að nákvæmlega sama prófið sé lagt fyrir ár hvert í námskeiðinu heldur hafi hluti spurninganna verið notaður áður og verði notaður aftur í framtíðinni. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á það með skólanum að með því að veita aðgang að eldri prófum í námskeiðinu verði síðari próf þýðingarlaus eða skili ekki tilætluðum árangri í skilningi ákvæða upplýsingalaga,” segir niðurstöðukafla úrskurðarins.

Bæri Háskóla Íslands því að veita nemandanum aðgang að eldri fyrirliggjandi prófum í námskeiðinu Örverufræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×