Innlent

Fólki ráðlagt að vera ekki í nágrenni við Múlakvísl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá hlaupi í Múlakvísl í sumar.
Frá hlaupi í Múlakvísl í sumar. vísir/jói k.
Há rafleiðni mælist nú í Múlakvísl og hefur rafleiðnin hækkað verulega síðustu tvo daga að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Mælist rafleiðnin nú 430 míkrósímens á sentímetra á meðan lítið vatn er í ánni. Þá hefur á sama tíma mælst brennisteinsvetni í hlíðum Láguhvola og sýna mælar styrkleika í kringum 1ppm.

Nokkuð líklegt er að hærri gildi mælist nær ánni en þau geta valdið óþægindum. Fólki er því ráðlagt að vera ekki í nágrenni við Múlakvísl og varast lægðir í landslagi.

„Rafleiðnin hefur verið að hækka síðustu daga en í rauninni hefur vatnshæðin ekkert verið að hækka. Það virðist vera þarna einhver leki, það er eitthvað jarðhitavatn sem er að koma úr Mýrdalsjökli,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

Há rafleiðni þýðir að meira er af uppleystum efnum í ánni en vanalega. Bryndís segir að engin hætta sé á ferðum þó að há rafleiðni mælist en það sem fólk þurfi að vara sig á sé brennisteinsvetni sem mælist við Múlakvísl.

„Það er meira það sem fólk þarf að varast. Með rafleiðnina þá þarf fólk síðan að varast ána ef vatnshæðin fer að hækka líka því þá gæti komið flóð,“ segir Bryndís en ekkert bendir til þess að vatnshæð Múlakvíslar sé að hækka. Þá er engin meiri skjálftavirkni í Mýrdalsjökli en venjulega.

Í gærkvöldi barst Veðurstofunni svo tilkynning um mikla brennisteinslykt við Kvíá sem rennur undan Öræfajökli. Aðspurð um stöðuna þar segir Bryndís að enn sé mikil brennisteinslykt við ána sem bendi til þess að jarðhitavatn sé að koma undan Öræfajökli.

„Við sendum mæla austur með flugi áðan og það á að gera handvirkar mælingar í ánni en eins og er erum við ekki með nein mælitæki þar,“ segir Bryndís. Það er því ekki vitað neitt nánar um rafleiðni í ánni eða annað slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×