Innlent

Hafnarfjarðarbær hlaut EPSA viðurkenninguna í Maastricht

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs, tók við verðlaununum.
Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs, tók við verðlaununum. Hafnarfjarðarbær
Evrópustofnunin í opinberri þjónustu veitti Hafnarfjarðarbæ EPSA viðurkenninguna í síðustu viku. EPSA, European public sector award, er veitt verkefnum í opinberri þjónustu sem bera vott um góða starfshætti og nýstárlegar úrlausnir á krefjandi viðfangsefnum.

Þema EPSA verðlaunanna í ár var nýsköpun í opinberri þjónustu og bárust alls 149 tilnefningar frá þrjátíu aðildarlöndum. Hafnfirska verkefnið sem hlaut viðurkenninguna ber nafnið „Geitungarnir“ og snýr að atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk.

Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að verkefnið Geitungarnir, sem sett var á laggirnar haustið 2015, miði að því að auka sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk varðandi atvinnu og félagslega virkni og að fatlað fólk fái tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Þá segir einnig að markmið verkefnisins sé að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks með gildisaukandi félagslegu hlutverki í starfi og vinna þannig að breyttu viðhorfi samfélagsins til fatlaðs fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×