Innlent

Þórhildur segist aldrei hafa hitt konu sem ekki hefur orðið fyrir áreiti eða ofbeldi

Þórdís Valsdóttir skrifar
„Ég held að ég hafi aldrei hitt konu sem ekki hefur orðið fyrir einhverskonar áreiti eða ofbeldi. Mjög margar ansi miklu,“sagði Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri og fyrrum alþingiskona í umræðu um byltingu gegn kynferðisofbeldi sem hefur átt sér stað að undanförnu.

Hún var gestur Kristjáns Kristjánssonar, ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur forseta Bandalags íslenskra listamanna og fyrrverandi alþingiskona, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Fjölmargar konur, bæði í stjórnmálum og öðrum vettvöngum, hafa að undanförnu sagt frá kynferðislegri áreitni, misrétti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

„Það hriktir í stoðum feðraveldisins, gott ef það er ekki bara kominn brestur,“ segir Þórhildur.

„Ofbeldi er ein af meginstoðum feðraveldisins, margar birtingarmyndir ofbeldis gegn hver öðrum, gegn konum, börnum og náttúru,“ segir Þórhildur og bætir við að feðraveldið sé heimsyfirráðakerfi, óháð trúarbrögðum eða hagfræði.

Þórhildur segir að henni þyki byltingin sem er að eiga sér stað vera afar merkilega. „Þetta hefur stefnt í þessa átt með mikilli umræðu um ofbeldismál af ýmsu tagi og líka að ungar konur hafa verið mjög uppteknar af hinni líkamlegu hlið jafnréttisbaráttunnar, beint athygli að því sem mín kynslóð gerði ekki. Við vorum í öðrum hlutum enda var kannski ekki búið að líkamsgera konur svona mikið þá eins og er núna.“

Kolbrún tekur undir með Þórhildi og segir að hún telji að baráttan hafi verið að magnast. „Dropinn hefur verið látinn falla, konur hafa staðið í baráttu gegn kúgun og ofbeldi svo langt aftur sem ég man. Nú er skurnin orðin svo þunn að við erum í raun að slá í gegn,“ segir Kolbrún og bætir við að nú séu miklu fleiri sem standa í jafnréttisbaráttunni en áður.

Kolbrún telur að baráttan sé komið á nokkurskonar „tipping point“. „Það er ótrúlega gefandi að fylgjast með þessu hafandi verið í hryllilegu „ströggli“, stappandi í sama smjörinu ár eftir ár án þess að nokkuð þokaðist og svo horfir maður á þetta núna. Ég fæ gæsahúð þegar ég tala um þetta.“

 

Þórhildur og Kolbrún fjölluðu um jafnréttismál og baráttu gegn kynferðisofbeldi í Sprengisandi í morgun.vísir
Lítilsvirðandi framkoma ekki síður vandamál

Þær segja báðar að þær hafi báðar verið hissa á því hversu margar ungar konur verða fyrir kynferðislegri áreitni. Í þeirra tíð, þegar þær voru yngri að byrja að feta sig í stjórnmálum var meira vandamál með lítilsvirðandi framkomu, sem að þeirra mati er enn við lýði og ekki síður mikilvæg umræða.

„Þegar ég var að byrja í stjórnmálum 44 ára gömul þá fannst mér meira um lítilsvirðandi framkomu, það var talað niður til manns. Ég varð ekki fyrir svona kynferðislegri áreitni eins og þær tala um. Ég held að það sé stigsmunur á framkomunni,“ segir Kolbrún.

„Það er ekki síður mikilvægt að það sé rætt um hina margvíslegu endalausu kúgun og mismunun sem konur verða fyrir alla sína ævi. Og guð hjálpi konum sem stíga á tærnar á karlmönnum, þeim er refsað grimmilega. Refsikerfin eru margvísleg. Ég held að þetta hafi ekkert breyst,“ segir Þórhildur og bætir við hversu algengt það er að konur séu sagðar vera erfiðar í samvinnu og hafi mikla skapgerðarbresti.

„Það er nú meira hvað konur eru kallaðar, þær eru gallaðir karlmenn,“ segir Þórhildur með kaldhæðnum tón.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×