Lögmenn Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hafa sagt lögmönnum forsetans að þeir geti ekki lengur rætt við þá rannsókn sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Það er talið vísbending um að Flynn vinni með rannsakandanum eða sé að semja við hann.
New York Times hefur þetta eftir fjórum ónafngreindum heimildamönnum sem koma að málunum. Lögmenn Flynn eru sagði hafa deilt upplýsingum með lögfræðiteymi Trump í tengslum við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsaknda, á meintu samráði framboðs Trump við Rússa. Því samstarfi hefur nú verið slitið.
Flynn var þjóðaröryggisráðgjafi Trump rétt í upphafi forsetatíðar hans. Hann neyddist til að segja af sér eftir innan við mánuð í starfi vegna þess að hann hafði ekki greint frá samskiptum sínum við Rússa. Bæði hann og sonur hans eru sagðir til rannsóknar hjá Mueller.
Alvanalegt er sagt að verjendur sakborninga deili upplýsingum á meðan rannsókn stendur yfir. Því er þó hætt þegar hagsmunaárekstrar koma upp, þar á meðal ef annar sakborninga ræðir við yfirvöld um samstarf.
Óttast að sonur sinn verði ákærður
Bandaríska blaðið segir að samstarfsslitin þýði ekki ein og sér að Flynn hafi gengið í lið með rannsakendum Mueller. Lögmenn Trump hafi þó tekið tíðindunum þannig. Lögmenn bæði Flynn og Trump neituðu að tjá sig við blaðið.
Flynn er sagður hollur Trump forseta. Hann hafi hins vegar lýst vaxandi áhyggjum undanfarið af því að sonur hans verði ákærður í tengslum við rannsókn Mueller. Flynn yngri var starfsmannastjóri föður síns og kom að fjármálagerningum sem Mueller er sagður beina sjónum sínum að.
Mueller hefur þegar ákært þrjá einstaklinga sem tengdust framboði Trump, þar á meðal Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra hans. Manafort og viðskiptafélagi hans eru sakaðir um samsæri, skattaundanskot og að skrá sig ekki sem fulltrúa erlendra ríkja. Þriðji maðurinn játaði sekt um að hafa reynt að afvegaleiða alríkislögreglumenn um samskipti hans við Rússa í kosningabaráttunni í fyrra.
Trump hefur ítrekað vísað öllum kenningum um að framboð hans hafi átt í samráði við rússnesk stjórnvöld á bug. Hann hefur meðal annars kallað rannsókn Mueller stærstu nornaveiðar sögunnar.
