Fimmtán vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Afganistan eru sagðir hafa verið afhöfðaðir í innri átökum samtakanna. Þá fórust að minnsta kosti átta manns í sjálfsmorðsárás á svipuðum slóðum í dag.
Reuters-fréttastofan segir að mennirnir fimmtán hafi verið drepnir í Nangarhar-héraði í austurhluta Afganistans og hefur eftir embættismönnum á svæðinu. Héraðið hefur verið eitt helsta vígi Ríkis íslams í Afganistan en það á landamæri að Pakistan.
Í Jalalabad, höfuðborg héraðsins, sprengdi maður sig í loft upp í mannfjölda sem hafði komið saman til stuðnings lögregluforingja sem var rekinn fyrir að sölsa undir sig land. Lögregluforinginn lifði árásina af. Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Auk þeirra átta sem fórust eru fimmtán sagðir sárir eftir sprenginguna.
Ríki íslams afhöfðaði eigin liðsmenn
Kjartan Kjartansson skrifar
