Erlent

Draga herlið sitt til baka frá Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur verið einn helsti bandamaður Bashar al-Assad Sýrlandsforseta á síðustu árum.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur verið einn helsti bandamaður Bashar al-Assad Sýrlandsforseta á síðustu árum. Vísir/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur fyrirskipað að Rússar byrji að draga herlið sitt til baka frá Sýrlandi. Rússneska fréttastofan TASS greinir frá því að Pútín hafi í morgun óvænt heimsótt rússneska herstöð í Khmeimim í Sýrlandi þar sem hann tilkynnti þetta.

Pútín fundaði í morgun með yfirmanni rússneska herliðsins á svæðinu, Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, sem og varnarmálaráðherra Sýrlands.

Rússar hafa á síðustu tveimur árum verið einn helsti bandamaður stjórnar al-Assad í baráttu þeirra gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS og uppreisnarhópum í landinu.

Fyrr í vikunni lýstu Rússar því yfir að tekist hafi að frelsa landsvæði Sýrlands frá liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS. Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights halda því þó fram að liðsmenn ISIS hafist enn við í héraðinu Dayr al-Zawr eða Deir Ezzor.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, sagði í gær að stríðinu gegn ISIS í landinu væri lokið og að tekist hefði að ná stjórn á öllum landamærum Sýrlands og Íraks.

Áttunda samningalotan í friðarviðræðum Sýrlands, undir handleiðslu Sameinuðu þjóðanna, hófust í Genf í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×