Erlent

Helsta leiðtoga stjórnarandstæðinga bannað að bjóða sig fram gegn Pútín

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní var ekki hlátur í huga þegar yfirkjörstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að hann mætti ekki bjóða sig fram.
Navalní var ekki hlátur í huga þegar yfirkjörstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að hann mætti ekki bjóða sig fram. Vísir/AFP
Yfirkjörstjórn Rússlands hefur úrskurðað að Alexei Navalní, einn helsti leiðtogi stjórnarandstæðinga þar í landi, megi ekki bjóða sig fram í forsetakosningum í mars. Útlit er fyrir að Vladimír Pútín verði endurkjörinn forseti með yfirburðum.

Navalní, sem hefur verið baráttumaður gegn spillingu, var ekki talinn kjörgengur vegna dóms sem hann hlaut fyrir fjárdrátt í febrúar. Dómurinn var skilorðsbundinn. Sjálfur hefur Navalní fullyrt ítrekað að málið gegn honum hafi verið runnið undan rifjum pólitískra andstæðinga, að því er segir í frétt Reuters.

Upphaflega var Navalní dæmdur í málinu árið 2013. Málið var tekið aftur til meðferðar eftir Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að tæknilegir ágallar hefðu verið á upphaflegri meðferð þess.

Navalní hefur verið handtekinn þrisvar á þessu ári og ákærður fyrir lögbrot í tengslum við mótmæli og útifundi.

Skoðanakannanir benda til þess að Pútín forseti vinni öruggan sigur í kosningunum í mars. Hann gæti þá setið í embætti til 2024.


Tengdar fréttir

Leiðtogi stjórnarandstöðu fær ekki að bjóða sig fram

Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, var í gær meinað að bjóða sig fram til forseta en forsetakosningar fara fram þar í landi á næsta ári. Miðstjórn kosninga í Rússlandi kvað upp úrskurð sinn þess efnis í gær og byggist hann á því að Navalny var dæmdur sekur fyrir fjárdrátt. Hann er nú á skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×