Innlent

Segir fjölgun flokka hafa talsverð áhrif á störf þingsins

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Vísir/Samsett
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að fjölgun flokka á Alþingi hafi töluverð áhrif á starfsemi þingsins. „Þetta er auðvitað breyting. Sérstaklega í samanburði við hvernig þetta var fyrir nokkrum árum,“ segir Helgi. „Þingflokkunum er í flestu gert jafnt undir höfði í þingstörfum án tillits til stærðar. Það tekur því lengri tíma að fá formleg sjónarmið allra flokka.“

Segir hann að sjónarmið allra þingflokka fái yfirleitt að heyrast í öllum málum og umræðum og því taki lengri tíma að fá slíkt fram. „Þetta verður aðeins fyrirhafnarmeira en það verður auðvelt að leysa þetta. Það þarf þá að skipta tíma öðruvísi og eitthvað svona.“

Þrengslin mjög mikil fyrir þingflokka og þingmenn

Aðspurður hvort erfitt verði að fjölga þingflokksherbergjum segir Helgi að það sé eitthvað sem þurfi einfaldlega að leysa. „Við höfum haft herbergi fyrir sjö þingflokka og við þurfum að gera breytingar til að búa til áttunda þingflokksherbergið. Þrengslin eru mjög mikil bæði fyrir þingflokka og fyrir þingmenn. Þeir búa ekki við hentugar skrifstofuaðstöður. Langt frá því,“ segir hann og bætir því við að þetta séu allt bráðabirgðalausnir sem eru ekki ákjósanlegar til lengri tíma.

Þá bætir hann því við að nýja húsið sem byggt verður vestan við þinghúsið muni skipta sköpum varðandi aðstöðu. Byggingin mun hýsa starfsemi Alþingis og aðallega vera aðstaða fyrir þingmenn, þingflokka og nefndastörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×