Fótbolti

Mauro Icardi með tvö mörk í sigri Inter á Roma

Elías Orri Njarðarson skrifar
Mauro Icardi að fagna einu af tveimur mörkum sínum í kvöld
Mauro Icardi að fagna einu af tveimur mörkum sínum í kvöld Visir/epa
Roma tóku á móti Inter Milan í seinasta leik kvöldsins í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Roma byrjuðu betur og eftir fimmtán mínútna leik skoraði framherjinn Edin Dzeko laglegt mark og kom heimamönnum yfir.

Lið Roma var töluvert betra í fyrri hálfleiknum, voru meira með boltann og sköpuðu sér nokkur færi en náðu ekki að koma boltanum í markið en Aleksandr Kolarov og Radja Nainggolan áttu báðir skot í stöng í fyrri hálfleiknum.

Staðan var 1-0 fyrir Roma þegar að blásið var til loka fyrri hálfleiks.

Lið Inter mættu töluvert efldari til leiks í síðari hálfleikinn en Roma héldu áfram að sækja á mark Inter og Diego Perotti, leikmaður Roma, átti hörkuskot á 65. mínútu sem hafnaði í stönginni.

Mauro Icardi, framherji Inter, jafnaði svo metin á 67. mínútu með snyrtilegu marki. Liðsmenn Roma vönkuðust við markið því tíu mínútum síðar skoraði Icardi aftur, sitt annað mark, og kom Inter yfir í leiknum.

Þegar að þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Matias Vecino þriðja mark Inter í leiknum og þar við sat. Flottur 1-3 sigur Inter staðreynd og leikmenn Roma mega vera mjög svekktir með þessi úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×