Erlent

Tugir farast í skógareldum í Portúgal

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn reyna að hvílast á milli þess sem þeir berjast við skógareldana.
Slökkviliðsmenn reyna að hvílast á milli þess sem þeir berjast við skógareldana. Vísir/AFP
Fjöldi þeirra 43 sem hafa farist í miklum skógaeldum nærri Coimbra í Portúgal brunnu inni í bílum sínum þegar þeir reyndu að flýja eldana. Yfirvöld vara við því að tala látinna gæti hækkað.

Auk þeirra látnu er 59 slasaðir af völdum eldanna, þeirra á meðal fjöldi slökkviliðsmanna sem hafa barist við þá samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Því miður virðist þetta vera versti harmleikurinn af völdum skógarelda sem við höfum séð undanfarin ár,“ segir Antonio Costa, forsætisráðherra landsins.

Um sex hundruð slökkviliðsmenn glíma nú við eldana en portúgalskir fjölmiðlar segir að þeir séu ekki nærri því að ráða niðurlögum þeirra.

Gætu hafa kviknað út frá eldingum

Alls hafa um sextíu skógareldar brotist út um allt landið í nótt og berjast um 1.700 slökkviliðsmenn við þá. Spænsk stjórnvöld hafa meðal annars sent tvær flugvélar til hjálpa til við að slökkva eldana.

Ekki er vitað um upptök eldanna en forsætisráðherrann segir að eldingar hafi getað kveikt þá. Mikil hitabylgja hefur gengið yfir landið og hitastigið náð yfir 40°C á sumum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×